Opið bréf til alþingismannaAðsent efni - - Lestrar 917
Vestmannaeyjum, 3.-4. mars 2012
Einu sinni var alþingismaður. Hann hét sjálfum sér og öðrum því að vinna af heilindum. Hann var valinn. Hann var kosinn ásamt hinum alþingismönnunum til þess að leiða þjóð sína í erfiðum málum. Hann varð að kynna sér málin til hlýtar. Oft var mikið að gera. Togstreita skapaðist stundum. Hvort ætti hann að vera í þingsal, á flokksfundi eða sinna erindum kjósenda sinna úr kjördæminu? Stundum vildi hann eiga tíma fyrir fjölskylduna eða hitta gömlu skólafélagana. Hvort ætti hann að hlusta á formann flokksins, kjósendurna, þrýstihópana, styrktaraðilana, hina fjársterku eða rödd hjarta síns?
Allt í einu birtist honum þetta bréf:
Elskulegi alþingismaður!
Ég veit, að þú munt gera þitt besta. Ég veit það vegna þess, að þú hefur lofað því . Það, sem þú þarft, er hugrekki til þess að vera þú sjálfur. Þú þarft að hlusta á þjóðina. Þú þarft að bera virðingu fyrir sjálfum þér og öðrum. Þú þarft að beita gagnrýnni hugsun, auka víðsýni þína og finna samkennd með öðrum, hvort sem þeir aðhyllast þína skoðun eður ei, hvort sem viðkomandi er fátækur eða ríkur, hvort sem þú álítur hinn sama vera stuðningsmann, vin eða fjandmann.
Ég hvet þig og samflokksmenn þína til þess að kryfja stefnuskrá ykkar og markmið til mergjar. Styddu aðra alþingismenn til sömu gjörðar. Slíkt er nauðsynlegt, svo að sömu mistök verði ekki endurtekin.
Ég er orðinn þreyttur á karpi ykkar á þingi, þó svo ýmsir telji slíkt vera spennandi, margir vilji slá sig til riddara með frækinni frammistöðu í fjölmiðlum og heiftarlegri árás á ýmsa samborgara, félög, stofnanir og fyrirtæki. Stólið fremur á sjálfstjórn ykkar, félags- og tilfinningaþroskann. Farið yfir málin af yfirvegun, skynsemi og rökvísi.
Hvers vegna heldur þú, að virðing almennings dvíni fyrir vinnustað þínum?
Hvers vegna heldur þú, að gömlu flokkarnir hafi fengið rassskell í síðustu sveitarstjórnarkosningum?
Horfðu nú vel í eigin barm, áður en þú svarar þessum spurningum.
Jafnt þú sem ég og allir aðrir þurfa að hafa löngun til þess að skilja, nægilega auðmýkt til þess að viðurkenna, að hægt er að skipta um skoðun og næga reisn til þess að skynja, að við berum öll ábyrgð – hvert og eitt okkar.
Ég verð að segja, að mér finnst þú og félagar þínir hafa verið heldur sofandi fyrir því, hvernig samfélag stór hluti Íslendinga vill fá. Við erum leið á hræðsluáróðri, samþykkjum ekki þöggunina, viljum ekki stanslausar fréttir af stríði. Við þurfum samvinnu og kærleika, virðingu, jöfnuð og réttlæti. Ég segi við, þar sem ég legg við hlustir, les skrif hins almenna borgara. Bæði þú og ég vitum, að ALLIR eiga samkennd í hjarta. Við þurfum að bera hag heildarinnar fyrir brjósti. Allir eiga jafnan rétt.
Sem einn af hinum fjölmörgu kjósendum þínum langar mig til þess að ráða þér heilt. Lestu bókina Þjóðgildin eftir Gunnar Hersvein. Einsettu þér að nema inntak hennar á næstu tveimur vikum. Bókin „er helguð tólf fyrstu gildunum sem viska fjöldans valdi á Þjóðfundinum 2009.“ Auk þess reifar höfundur hugtakið hófsemd.
„Þjóðfundurinn átti að virkja sameiginlegt innsæi og vitund almennings sem hulin væri hverjum einstaklingi. Þjóðfundurinn var framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf til sjálfs sín og veganesti fyrir ráðamenn.“
Fylgir þú þessum ráðum mínum muntu örugglega finna samhljóm í huga, hjarta og sálu þinni. Þá verður þú öruggur, fullviss í þínum gjörðum, því framvegis munt þú vinna af heilindum með frið og gleði í hjarta. Þú munt vakna – vakna til nýrrar vitundar.
Með einlægri kærleikskveðju frá Eyjum,
Gunnar Rafn Jónsson, læknir