Nokkur orð frá Sigrúnu og Almari

Okkur fjölskyldunni langar að koma nokkrum orðum á framfæri.

Nokkur orð frá Sigrúnu og Almari
Aðsent efni - - Lestrar 1331

Sigrún Birnar Árnadóttir og Almar Eggertsson.
Sigrún Birnar Árnadóttir og Almar Eggertsson.

Okkur fjölskyldunni langar að koma nokkrum orðum á framfæri. 

Undanfarnir dagar hafa verið afskaplega dýrmætir. Við höfum fengið í skilaboðum og samtölum mikinn stuðning, bæði frá nær samfélaginu og víðar sem okkur þykir óendanlega vænt um. 

 
Það kann hinsvegar að vera að einhverjir í nærsamfélaginu taka umræðuna inn á sig og líta á hana sem einhverskonar árás. Í raun er það óhjákvæmilegt. Ef það hefur gerst, þykir okkur það raunverulega og afskaplega leitt. 
 
Sannleikurinn er sá, að við erum sjálf á stað tilfinningalega sem við þekkjum lítið. Rótin og ástæða þess að við komum með þessa frásögn er vegna þess að við elskum dóttur okkar og við viljum allt gera til þess að henni líði betur. En okkur þykir sömuleiðis vænt um Húsavík og samfélagið sem hér er. 
 
Það er engin tilfinning verri en að vita af vanlíðan eigin barns og vita ekki hvernig hægt er að gera hlutina betri. Allir foreldrar þekkja þessa tilfinningu. Allir foreldrar hafa setið með litlu stelpuna sína eða strák sem líður illa, strokið vanga, þerrað tárin og sagt; þetta verður allt saman í lagi. 
 
Ímyndið nú að það sé ekki svo, að þið vitið ekki hvort allt verði í lagi. Það er raunveruleikinn okkar.
 
Frásögn okkar er ekki vegna þess að við  vitum að hún muni laga ástandið eða líðan. Heldur er þetta örvænting. Örvænting við hlutum sem við höfum enga stjórn á. Við erum hrædd fyrir barnið okkar og framtíð hennar. 
 
Við trúum hinsvegar á það góða í fólki, við vitum að flest fólk vill gera gott. Það er haldreipið okkar. Það eru gildin sem við vitum að þið þekkið í vinum ykkar og nágrönnum. Og þau gildi sem við vonum innilega að þið sækið í, þrátt fyrir allt. Að geta sett sig í spor annarra er mikilvægt gildi, að hafa samkennd fyrir þeim sem líður illa er mikilvægt gildi, að fyrirgefa er mikilvægt gildi. 
 
Og kannski það mikilvægasta, að geta rætt saman um framtíðina, án þess að dæma er öllum mikilvægt. Það á svo sannarlega við okkur eins og ykkur.
 
Með auðmjúkri virðingu og vinsemd ❤
Sigrún og Almar Eggertsson

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744