Litla eyjan í suðurhöfum-Ferðasaga frá ÁstralíuFólk - - Lestrar 1109
Fyrir rúmlega ári síðan hófst ferðalagið okkar til Ástralíu þann 13 júní 2012 var lagt af stað til þessarar „litlu“ fallegu eyju í suðurhöfum.
Þetta er ferðasagan okkar:
Við byrjuðum á að stoppa í Hollandi í 3 daga áður en haldið var áfram til Singapore. Við lentum í Singapore þann 17. Júní, hæ hó jibbý jei!!!. Þreytt en sæl eftir langt ferðalag, 12 tíma flug. Hilda var til dæmis haldin sjóriðu vegna þreytu, og var full viss um að hótelið okkar vaggaði fyrsta sólahringinn.
Áttum við yndislega daga í Singapore, og gistum við meðal annars á einu glæsilegasta hóteli sem til er í Asíu, Marina bay sands og til dæmis þá er sundlaugin á hótelinu efst upp á þakinu í 250 m. hæð. Annars er margt og mikið sem er hægt að skoða í Singapore og hvetjum við alla sem eiga leið um að gefa sér tíma til að stoppa og skoða, Singapore er mjög öruggt og vinalegt land. Til dæmis er virkilega gaman að gefa sér tíma í að skoða Kínahverfið og dreypa á Kínverskum mjöð. Og að ferðast í leigubíl í Singapore er mjööög skemmtileg upplifun út af fyrir sig. Mæli með leigubílaferð.
Sundlaugin við Marina bay sandshótelið.
Hilda slappar af í sundlauginni á Marina bay sands.
Eftir skemmtilega daga í Singapore var ferðinni haldið áfram niður til Ástralíu og lentum við hér þann 20. júní þreytt en sæl í Brisbane og glöð yfir að vera komin á áfangastað.
Við erum á stað sem heitir Gold Coast og er í Queensland hér búa um 600 þúsund manns og er Gold Coast mikill ferðamannastaður, bæði koma Ástralir annars staðar frá hingað í frí og svo fólk utan úr heimi eins og við.
Við reynum að ferðast út frá Gold Coast eins mikið og við getum. Hér er sól 360 daga á ári eða þar um bil. Það er hásumar í Desember hérna „Down under“ og var því frekar sérstakt að halda jól í 30 stiga hita og rúmlega það og 100% raka. En jólin tókust með ágætum. Þegar vetur gengur í garð hér hjá okkur eða þann 1. Júní þá eru dagarnir eins og góðir sumardagar heima á Íslandinu góða eða um 23-24 gráður yfir há daginn, sem er mjög fínt, þó getur orðið mjööög kalt á kvöldin og nóttunni.
Ástralir eru skemmtilegir að sækja heim, og hér eru allir „mates“ eða félagar, þá skiptir engu hvort þú þekkir viðkomandi eða ekki svo er allt „To easy“ hjá þeim líka ha ha. Og þegar farið er að versla þá er viðbúið að maður lendi á spjalli við afgreiðslufólkið um allt milli himins og jarðar, sem er mjög viðkunnanlegt og skemmtilegt. Ástralir eru yfir höfuð mjög vingjarnlegir og skemmtilegir, þeim finnst mjög gott að fá sér í aðra tánna, og eru duglegir að sulla í sig einum og einum bjór.
Dýralífið er auðvitað stórkostlegt hérna „down under“ og eitt og annað sem við höfum upplifað í sambandi við það, við höfum auðvitað þurft að kljást við einn og einn kakkalakka sem er svosem ekki frásögu færandi, en einnig höfum við (eða það er að segja Jónas) þurft að kljást við eitt stykki leðurblöku sem kom óvænt í heimsókn til okkar, og við erum ekkert að tala um einhverja litla leðurblöku, nei nei kvikindið var á stærð við hrafn, og var frekar ófrýnileg en eftir mikinn bardaga á svölunum þá tókst Jónasi (leðurblökubana) að koma henni fyrir kattarnef.
Við komumst svo að því seinna meir að það er bannað með lögum að „svæfa“ hér leðurblökur, því er nú ver og miður, þannig að hér eftir munum við ekki „svæfa“ þessi grey.
En við höfum einnig séð fullt af skemmtilegum dýrum, þar með talið kengúrur, fengið að halda á Kóalabirni og krókódíl en þó er rétt að taka það fram að krókódíllinn var nú ekki af stærstu gerð. Og svo spjölluðum við lengi við páfagauk eftir frábæran dag í Australian zoo , sem er ómissandi að heimsækja þegar maður er hérna í henni Ástralíu, en hann er staðsettur rétt norðan við Brisbane, og er hugarfóstur hans Steve´s Irwins heitins.
Einn voða þreyttur.
Hér er fuglalífið mikið og má sjá hér til dæmis allskonar páfagauka í öllum stærðum og gerðum við hvert fótmál, sem við erum nú ekki vön að sjá heima á Íslandinu góða. En svona er jú – Ástralía.
Og að rekast á eina og eina eðlu er ekkert tiltöku mál – ekki lengur ;) En einn morgunin rakst Hilda á eitt stykki brownsnake sem er einn af hættulegustu snákum í heimi og viðurkenndi hún að hjartað stoppaði býsna lengi við þá sjón.
Rakst á þessa þegar ég var á morgungöngu – hún greinilega líka í morgungöngu. það er sem sagt mikið um dýralíf hérna „down under“.
Markmið okkar er að reyna ferðast sem mest um þessa „litlu“ eyju eins og mögulegt er. Við skelltum okkur til Sydney í mars ásamt Huldu „litlu“ Sigmarsdóttur og Styrmi, og var ákveðið að keyra fram og til baka um 2000 km en ekki fljúga, heldur að upplifa sem mest á leiðinni.
Sydney er frábær borg og mælum við með að fólk kíki þangað þegar það á leið um Ástralíu. Að standa fyrir framan óperuhúsið er stórkostleg upplifun, húsið og nánasta umhverfi í kring er ótrúlega flott og tilkomumikið. Og ekki skemmir útsýnið yfir „The Coathanger“ sem er mjög tignarlegt mannvirki, stálbrú sem liggur yfir að hafnarsvæðinu í Sydney. Við vorum á litlu ódýru hóteli sem var alveg miðsvæðis í Sydney og vorum við ekki nema um 10 mínútur að labba niður að höfn og 2 mín að labba að aðal verslunargötunni, það var því stutt í allt fyrir okkur, þó að hótelið hafi kannski ekki verið til að hrópa húrra fyrir, en ferðin var stórkostleg í alla staði. Því næst var lagt af stað aftur til Gold Coast.
Næst á dagskrá er að keyra norður fyrir Brisbane og í átt að Cairns en það eru um 1700 km. þangað og skoða okkur þar um, og auðvitað verður snorkað við kóralrifinn, ásamt fleiru skemmtilegu. Jafnframt stefnum við á að aka inn í landið og skoða hið tilkomumikla „Uluru“ einnig nefndur „Ayers Rock“ sem er ekki langt frá Alice Springs en það eru 3200km leið og fara svo þaðan og niður til Melbourn, og skella sér í kjól og hvítt og upplifa Melbourne veðreiðarnar. Aka svo í átt að Sydney og svo aftur til Gold Coast, þannig að við erum að tala um 6 vikna ferðalag og um 8000Km akstur, en eins og sagt er „hvað er það á milli vina“.
En eins og áður hefur komið fram þá er jú markmiði að reyna ferðast sem mest um þessa „litlu“ eyju. Munum reyna að senda áframhald af ferðasögunni eftir næstu tvær ferðir. Þar til næst – Bestu kveðjur til allra vina, ættingja og annarra er nenna að lesa þetta .
Jónas og Þórhildur.