Kæru kjósendur.Aðsent efni - - Lestrar 459
Til að gera samfélag eins og Norðurþing ákjósanlegan stað til að búa á þarf að vera til staðar næg atvinna fyrir alla og eru atvinnumálin stærstu málin hjá okkur í dag og munum við berjast fyrir að hér aukist atvinnuframboð með nýtingu orku hér heima í héraði og einnig þurfum við að hlúa að þeim atvinnufyrirtækjum sem fyrir eru á svæðinu. Ferðamálaiðnaðurinn er stækkandi atvinnugrein sem þarf að hlúa að.
Forsendan fyrir því að hér sé gott að búa og hingað flytjist nýir íbúar er að grunn-þjónusta sveitarfélagsins sé góð, eins og t.d. skólarnir og ætla ég að fjalla örlítið um skólamál í okkar sveitarfélagi.
Leikskólar
Við þurfum að standa vörð um það mikilvæga og faglega starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins. Það þarf að fjölga leikskólaplássum þannig að öll börn eigi rétt á að ganga í leikskóla frá 1 árs aldri. Eins og staðan er núna eru mörg börn orðin 2 ára þegar þau loksins komast í leikskóla, þessu viljum við ekki una, ég tel mjög brýnt að finna lausn á þessum vanda og fyrir því mun ég beita mér.
Áframhaldandi starf dagforeldra er mikilvægt meðan leikskólarnir ná ekki að taka við öllum nemendum þegar fæðingarorlofi lýkur.
Grunnskólar
Það þarf að hlúa að hinu metnaðarfulla starfi sem fram fer í grunnskólum sveitarfélagsins,stuðla þarf að áframhaldandi samstarfi grunn og leikskóla og einnig samstarfi milli grunn og framhaldsskólans.
Tónlistarskólar
Við þurfum að verja tónlistarskólana okkar, þeir eru mikilvægir fyrir almennan þroska nemenda og góð forvörn til framtíðar, ég tel að besta leiðin til að tryggja tónlistarskólana til framtíðar sé að sameina þá undir eina yfirstjórn og samnýta jafnvel kennara og búnað. Þeir hafa líka mikið menningarlegt gildi fyrir alla íbúa sveitarfélagsins, meðal annars með ýmsum uppákomum og tónleikum. Stuðla þarf að áframhaldandi samstarfi tónlistarskóla við grunnskóla og leikskóla, en slík samvinna er nær einsdæmi á landinu.
Framhaldsskólinn
Ég vil sjá framhaldsskólann á Húsavík vaxa og dafna, til þess þarf að skapa honum sérstöðu og gera skólann eftirsóknarverðan og samkeppnishæfan við aðra skóla. Bygging heimavistar er nauðsynleg til að fjölga nemendum og tryggja þeim nemendum sveitarfélagsins er búa utan Húsavíkur heimili, meðan á námi stendur og verður það að vera forgangsverkefni að sveitarfélagið beiti sér fyrir því, slíkt húsnæðið er svo hægt að nýta í ferðaþjónustu yfir sumartímann.
Dóra Fjóla Guðmundsdóttir
Skipar 2.sæti á S-lista samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 29.maí n.k.