Inle Valdés Mayarí og Akil Defreitas munu leika með Völsungi í sumar

Knattspyrnudeild Völsungs hefur gert samkomulag við Akil Defreitas og Inle Valdés Mayarí um að leika með liðinu á komandi sumri.

Inle Valdés Mayarí mun verja mark Völsungs í sumar
Inle Valdés Mayarí mun verja mark Völsungs í sumar

Knattspyrnudeild Völsungs hefur gert samkomulag við Akil Defreitas og Inle Valdés Mayarí um að leika með liðinu á komandi sumri. 

Akil er 32 ára og er fæddur og uppalinn á Port of Spain á Trinidad og Tobago og getur leikið allar sóknarstöðurnar á vellinum. Valdés er 26 ára markmaður sem er fæddur á Kúbu þar sem hann bjó til 11 ára aldurs þegar hann flutti til Spánar þar sem hann hefur búið allar götur síðan.

Akil Defreitas

Akil Degfreitas í leik með Vestra. Ljósmynd: Instagram: akildefrei

Akil á langan feril af baki og hefur leikið í Kanada, Finnlandi, Litháen og nú síðast á Íslandi þar sem hann hefur leikið fyrir Sindra og Vestra. Hann á einnig leiki af baki fyrir U-17, U-20, U-21 og U-23 hjá Trinidad og Tobago. "Ég valdi Völsung því mér hefur líkað við leikstíl liðsins ásamt því sem þeir virka sem ein fjölskylda inni á vellinum. Ég vil vera partur af liði sem býður mig velkominn og spilar góðan fótbolta".

Inle Valdés Mayarí

Inle Valdés Mayarí. Ljósmynd: Instagram: Valdes13m

Valdés samdi við CD Numancia á sínum yngri árum og spilaði með unglingaliðum félagsins. Þar lék hann einnig með varaliði félagsins og æfði meðal annars með aðalliðinu og lék til að mynda æfingaleik móti Zaragoza. Í þriðju deildinni á spáni hefur hann leikið fyrir SD Almazán og Pinto Atletico þar sem hann lék á síðasta tímabili. Eftir það tímabil samdi Valdés við UD San Sebastian de los Reyes sem eru í annari deild á Spáni, hann byrjaði í varaliðinu en vann sig fljótt inn í aðallið félagsins. "Ég er mjög metnaðarfullur leikmaður og hef alltaf verið tilbúinn að taka nýjum áskorunum. Ég trúi því að ég muni vaxa bæði sem leikmaður og einstaklingur á því að koma til Húsavíkur. Ég hlakka mikið til að upplifa nýja hluti og kynnast nýrri menningu".

Báðir munu þeir koma til Húsavíkur í lok apríl. Akil segist ekki vita mikið um Húsavík, "þetta verður í fyrsta skipti sem ég bý á Húsavík. Ég hlakka mikið til að hitta fólkið í bænum og kynnast menningunni. Ég hef búið á Íslandi undanfarin tvö ár og hef fallið fyrir fallegri náttúru landsins", segir Akil. 

Þeir hafa skýr markmið fyrir komandi sumri. "Völsungsliðið var nálægt því að fara upp um deild í fyrra og ég hef trú á að við getum farið alla leið í sumar", segir Akil. Valdés er bjartsýnn og bætir við, "ef við náum að helga okkur verkefninu 100%, leggja okkur fram í bland við góðan liðsanda hef ég trú á því að við náum að gera góða hluti í sumar". 

Jóhann Kr. Gunnarsson

Jóhann Kristinn þjálfar lið Völsungs líkt og undanfarin tvö ár. Liðið hefur tekið miklum framförum og spilar skemmtilegan fótbolta á að horfa bæði í meistaraflokk og 2. flokk. Liðin eru byggð upp af heimamönnum, af 30 leikmönnum í liðunum tveimur munu verða 3 sem ekki hafa farið í gegnum yngri flokka starf félagsins. Jói er gríðarlega ánægður með viðbótina í hópinn. ,,Með því að fá sterka og reynda leikmenn eins og Akil og Valdés erum við að auka gæðin mikið inn í hópinn okkar. Bæði á æfingum og í leikjum. Það tekur á hópinn að spila heilt tímabil og eins og við fundum í fyrra þá veitir ekki af því að hafa breiðan og sterkan hóp. Samkeppnin er hörð í deildinni og liðin eru að styrkja sig mikið í kringum okkur. Ætlunin er að taka næsta skref og fara lengra en í fyrra. Við teljum að með þessum undirskriftum færumst við nær því takmarki. Það er erfitt fyrir lítið félag eins og Völsung að fá erlenda leikmenn til liðs við sig. Við erum svo heppin þetta árið að þessir þrír sem koma til okkar duttu allir inn í vinnu hér í bænum og þ.a.l. mögulegt fyrir þá að búa hér. Enda engir sjóðir hjá okkur að sækja í. Kunnum við þeim aðilum bestu þakkir fyrir! Við væntum mikils af þeim félögum og bjóðum þá hjartanlega velkomna."

Fyrr í vetur samdi Völsungur við Kaelon Fox um að leika með liðinu en lesa má um það hér


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744