Ingibjörg Sigurjónsdóttir: Opið bréf til ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur

Við gerð fjárlaga var vegið gróflega að grunnþjónustu okkar Þingeyinga. Okkur er gert að leggja til 10% af heildarsparnaði í heilbrigðisþjónustu á

Við gerð fjárlaga var vegið gróflega að grunnþjónustu okkar Þingeyinga. Okkur er gert að leggja til 10% af heildarsparnaði í heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Enginn önnur stofnun á landinu þarf að skera jafn mikið niður og okkar góða stofnun. 

 

Hér upplifir almenningur algjört skilningsleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þið virðist annað hvort ekki gera ykkur grein fyrir því hver áhrif þessa eru á samfélag okkar eða þá að ykkur er alveg sama.  Ég veit ekki hvort er verra. Áhrif svona ákvörðunar ganga langt út fyrir það að fólk þurfi að sækja þjónustuna annað. Þar er þó augljóslega verið að velta kostnaði yfir á almenning, því það er kostnaðarsamt að keyra sig á milli. En áhrifin eru ekki síður þau að lífsgæði á okkar landsvæðiskerðast.  Þeir sem eru að taka ákvörðun um hvar þeir skuli búa koma síður til með að vilja búa á svæði þar sem grunnþjónusta sem þessi er skorin við nögl. 

 

Við höfum verið svo lánsöm að eiga einstaklega góðan starfshóp á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Þar starfar vel menntað og reynslumikið fólk. Þetta fólk hefur sætt sig við launalækkanir og aukið vinnuálag og verið fúst til þess að hagræða sem vissulega hefur verið gert í rekstri HÞ á undanförnum árum.  50-70 starfsmenn úr þessum hópi koma til með að missa vinnuna sína. 

Þetta eru um 3% íbúa Húsavíkur og auðvitað enn hærra hlutfall af fólki á vinnualdri. Hvar á þetta fólk að fá vinnu?  Hvernig vinnustaður verður HÞ fyrir þá sem eftir sitja?  Fólk sem ekki fær vinnu þar sem það býr hugsar sig til hreyfings. Flytji allt þetta fólk í burtu með maka sinn og börn, fækkar fólki á svæðinu, börnum í leik- og grunnskólum fækkar. Allt þetta hefur áhrif á rekstrargrundvöll stofnana og fyrirtækja á svæðinu. 

Í tillögum um niðurskurð á HÞ hefur meðalhófs og sanngirni á engan hátt verið gætt. Okkur þykir gróflega vegið að byggð í Þingeyjarsýslum og er misboðið. Við krefjumst þess að ríkisstjórnin endurskoði ákvörðun sína.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Ingibjörg sendi þetta bréf til forsætis-fjármála- og heilbrigðismálaráðherra.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744