Höldum ótrauð áframAðsent efni - - Lestrar 430
Bankahrunið hefur reynt á innviði samfélags okkar og á margan hátt höfum við staðist þá raun vel. Erfiðleikarnir hafa leitt fram jákvæða þætti í samfélaginu svo sem styrkleika atvinnulífs sem hér er. Landbúnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru bakbeinið í íslensku atvinnulífi og samkeppnisstaða okkar hefur þannig styrkst. Við eigum mikla möguleika í greinum eins og fiskeldi og ferðaþjónustu. Líklega er ekkert svæði sem býr yfir viðlíka tækifærum eins og við á sviði ferðaþjónustu og fjölmargir eru að nýta sér þá möguleika og er það vel. Stærsta tækifæri okkar liggur þó í nýtingu orku.
Þurfum að berjast
Við þurfum að berjast fyrir því að orkan í Þingeyjarsýslum verði nýtt hér. D-listinn hefur ekki fyrirfram mótaða skoðun á því í hvað. Við leggjum hinsvegar áherslu á að þau tækifæri sem við höfum í hagnýtingu orkunnar verði virt. Talið er að störfum á svæðinu fjölgi um 800-1000 og gera má ráð fyrir að Þingeyingum fjölgi um 1000 í það minnsta að verði byggt álver á Bakka. Þessi fjölgun gerir ekkert meira en að vinna upp þá íbúaþróun sem verið hefur hér á undaförnum 10 árum. Það er því til mikils að vinna.
Þrátt fyrir að ráðamenn tali jákvætt um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum þá er slagurinn ekki unninn. Nýlegur fundur á Hótel Húsavík er skýrt dæmi um það. Slagurinn verður ekki unninn fyrr en skrifað er undir samninga við kaupendur orkunnar. Við megum því hvergi hvika í þeim ásetningi okkar að uppbyggingin verði hér, að orkan fari ekki úr héraði. Ekki láta nýjar og nýjar fléttur villa okkur sýn heldur halda ótrauð áfram.
Kosningar snúast um hverjum er treyst
Kosningarnar 29. maí snúast um hverjum íbúar í Norðurþingi treysta til að fylgja eftir hagsmunum okkar. Hverjir eru tilbúnir, hafa getu og vilja til að veita stjórnvöldum aðhald í þeim átökum sem framundan eru. Við bjóðum okkur fram til að leiða þessa baráttu fullir bjartsýni á möguleika okkar samfélags.
Höfundar eru Jón Helgi Björnsson og Sigurgeir Höskuldsson sem skipa 1. og 3 sæti á D-lista.