Hillary Clinton ba fyrir kveju til rlygs Hnefils yngriAlmennt - - Lestrar 387
Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað Össur Skarphéðinsson kollega sinn fyrir kveðju til Örlygs Hnefils Örlygssonar á fundi þeirra í Washington í dag en hann á frumkvæði að sýningunni "Geimfarar í Þingeyjarsýslu" sem opnuð verður í Safnahúsinu nk. föstudag.
Á fundinum greindi Össur Hillary frá opnun ljósmyndasýningarinnar en hún er haldin til minningar um komu Neil Armstrong og fleiri bandarískra geimfara í Þingeyjarsýslu þar sem þeir æfðu sig fyrir tunglferð
Á heimasíðu Safnahússins segir:
Árið 1965 kom hópur starfsmanna Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hingað til lands. Í hópnum voru geimfaraefni stofnunarinnar, þeirra á meðal Buzz Aldrin sem steig annar manna fæti á tunglið. Þeir fóru til æfinga og skoðuðu náttúru í Þingeyjarsýslum, sérstaklega við Mývatn og í Öskju. Tveim árum síðar árið 1967 kom annar hópur frá NASA og meðal geimfaraefna í þeim hóp var Neil Armstrong. Af þeim 12 mönnum sem hafa stigið fæti á tunglið komu 9 í sýslurnar okkar til að æfa sig og læra jarðfræði undir handleiðslu Íslenskra jarðvísindamanna. Með í för voru hérlendir blaðamenn sem skráðu ferðasöguna og tóku mikið af myndum.
Náttúrufræðistofnun Íslands lánar tunglstein sem Íslenska ríkið fékk að gjöf frá Bandaríkjunum í kjölfar tunglferðanna til sýningarinnar. Ásamt steininum er íslenskur fáni sem flogið var með til tunglsins og aftur til baka á sýningunni.
Einnig eru á sýningunni myndir frá frumárum geimferðanna. Medalía sem slegin var árið 1969 úr málmi sem geimfararnir í Apollo 8 flugu með kringum tunglið á jóladaga 1968 (í fyrstu ferð manna umhverfis tunglið). Medalíur af þessu tagi voru gefnar starfsmönnum NASA og völdum verktökum sem unnu að tunglferðunum. Líkan af geimflauginni Saturn V sem flaug geimförunum til tunglsins og Hasselblad myndavél samskonar þeim sem notaðar voru í geimferðunum.
Að lokum eru átta listaverk eftir Erró til sýnis. Verkin eiga það öll sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um geimferðir.
Í maí verður sýningin opin alla virka daga frá 10-16 en frá og með 1.júní verður opið alla daga vikunnar frá 10-18.
Sýningin mun standa til loka júlímánaðar 2011.