Helena Eydís: Til ríkisstjórnar ÍslandsAðsent efni - - Lestrar 942
Fyrir um 4 árum síðan kaus ég að snúa aftur heim eftir að hafa aflað mér háskólamenntunar og starfs-reynslu annars staðar. Ástæðan var að ég hef þá trú að okkur Íslendingum sé best borgið með byggð í öllu landinu og að í hverju byggðalagi þurfi mannauðurinn að vera fjölbreyttur t.d. með tilliti til menntunar íbúa. Nú efast ég um að ég hafi valið rétt þar sem háttvirt ríkisstjórn virðist helst vilja skella í lás og aftengja rafmagnið á mínum annars ágætu heima-slóðum en gróflega er vegið að tilvist Þingeyinga og búsetu-skilyrðum í Þingeyjarsýslu við gerð fjárlaga fyrir árið 2011.
Menntamálin standa mér nærri en niðurskurður á því sviði er töluverður. Þar má nefna lægri framlög til Framhaldsskólans á Húsavík (9,8 milljónir), lægra framlag til Þekkingarnets Þingeyinga (2,2 milljónir) og lægra framlag til Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík (0,6 milljónir) - þá er ótalinn niðurskurður til reksturs grunnskóla en framlög ríkisins til málaflokksins munu lækka um 3% m.v. árið 2010. Þó flest sé neikvætt varðandi menntamálin ber þó að fagna að Framhaldsskólinn á Laugum fái aukin framlög til rekstrar m.v. árið 2010 enda unnið frábært brautryðjenda starf í skólanum á mörgum sviðum.
Það svíður sárt að Heilbrigðisstofnun Þingeyinga skuli ætlað að skera niður um 40% í rekstri sínum. Stofnunin tekur þar með á sig um 10% alls niðurskurðar í heilbrigðisskerfi landsmanna. Á undanförnum árum hefur stofnunin þurft að skera mikið niður og má þar nefna að hér var einu sinni rekin fæðingardeild og að mikið hefur verið hagrætt í rekstri. Gera má ráð fyrir að boðaður niðurskurður feli í sér uppsagnir 60-70 manns í 40-55 stöðugildum. Í flestum tilfellum er um konur að ræða sem eiga ekki greiðan aðgang að öðrum störfum á svæðinu og munu því að öllum líkindum þurfa að flytja búferlum ásamt fjölskyldum sínum. Skyldi kynjuð fjárlagagerðin hafa tekið þetta með í reikninginn?
Þingeyingar hafa á undanförnum árum reynt af besta mætti og eftir bestu vitund að byggja upp atvinnulíf á svæðinu bæði tengt ferðaþjónustu og stóriðju en mætt engu öðru en andstreymi stjórnvalda. Sjálfur iðnaðarráðherra í núverandi ríkisstjórn hefur talað um uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum og fjármálaráðherra hefur sömuleiðis talað fyrir slíkri uppbyggingu í stað stóriðjuupp-byggingar. Með þessum stórfellda niðurskurði hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sé ég ekki hvernig við Þingeyingar eigum að geta byggt upp heilsutengda ferðaþjónustu til að hafa lífsviðurværi af.
Hér að framan hefur einungis verið talinn upp lítill hluti af þeim niðurskurði sem kemur við Þingeyinga, ótalinn er niðurskurður til sýslumannsembættis, lögreglu,almennings samgangna, rannsóknarstarfa og áfram mætti lengi telja.
Í Þingeyjarsýslum búa um 5.000 manns. Niðurskurður á þjónustu eins og fjárlög ársins 2011 boða gerir þessum 5.000 íbúum illmögulegt að búa áfram á svæðinu. Mun hreinlegra hefði verið að ákveða að leggja búsetu í Þingeyjarsýslum niður, senda rútur og flutningabíla á svæðið og sækja okkur sem enn búum hér heldur en að bjóða okkur upp á slíka niðurlægingu sem fjárlög ársins 2011 eru fyrir okkur.
Ég legg því til að ríkisstjórn Íslands segi starfi sínu lausu og gefi öðrum tækifæri til að leiða okkur út úr þeim vanda sem við okkur blasir.
Helena Eydís Ingólfsdóttir
Bréf þetta var sent forsætis- og fjármálaráðherra og þingmönnum Norðausturkjördæmis.