Hanna Jóna Stefánsdóttir: Ágæta ríkisstjórn

Ég er tuttugu og eins árs gömul stelpa frá Húsavík, hef alla mína tíð búið þar og ber sterkar taugar til míns heimabæjar. Síðustu þrjú sumur hef ég unnið

Hanna Jóna Stefánsdóttir: Ágæta ríkisstjórn
Aðsent efni - - Lestrar 742

Ég er tuttugu og eins árs gömul stelpa frá Húsavík, hef alla mína tíð búið þar og ber sterkar taugar til míns heimabæjar. Síðustu þrjú sumur hef ég unnið við aðhlynningu á öldrunardeild á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og nú í haust lá leiðin suður til Reykjavíkur til náms í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

 

Ég hef alltaf hugsað mér að ég myndi flytja suður í þessi fjögur ár sem menntunin tekur en færa mig svo heim til Húsavíkur aftur og vinna á sjúkrahúsinu.

 

Þann 1. október síðastliðinn heyrði ég svo fréttirnar líkt og flestir aðrir um tilkomandi tæplega 40% niðurskurð á fjárveitingu til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Hvað höfum við Þingeyingar gert svo slæmt að eiga þetta skilið? Höfum við ekki lengur rétt til þess að búa í okkar annars fallega heimabæ? Eigum við bara að pakka saman lífinu og flytja? Hvert myndum við flytja? Ég veit það fyrir víst að þið fengjuð okkur ekki öll á Suðvesturhornið, það færi hellingur af fólki út fyrir landssteinana og ég hugsa að ég myndi gera það líka, frekar en að búa fyrir sunnan.

 

Þetta er heldur ekki svo einfalt því þó að „einungis“ 70 manns myndu missa vinnuna gæti þetta fólk átt mjög erfitt með að flytjast burt, allt þetta fólk á fjölskyldur á Húsavík, börn í skóla og maka sem hefur atvinnu á staðnum. Hvernig á þetta fólk að geta selt húsin sín, til þess að hasla sér völl annars staðar, hvort sem það yrði í öðrum bæjarfélögum á landinu, eða erlendis? Hver ætli myndi flytja til Húsavíkur þar sem sjúkrahúsþjónusta yrði í svo miklu lágm­arki að fólk yrði jafnvel í hættu?

Það er meira en að segja það að keyra til Akureyrar um hávetur þegar Víkurskarðið er t.d. lokað, eins og gerist yfirleitt nokkrum sinnum hvern vetur. Hvað með Vaðlaheiðargöngin? Fengjum við þau í staðinn?

Hafið þið hugsað út í afleiðingarnar sem þetta myndi hafa á svona lítið bæjarfélag?  Það mun hafa áhrif á alla aðra þjónustu í bænum ef heilu fjölskyldurnar flykkjast þaðan. Á bara að leggja bæinn í eyði? Er það markmið ykkar með þessu?

Fólk er reitt, og ykkur að segja þá stendur allt sveitarfélagið saman í þessum mótmælum. Við líðum ekki svona framkomu því við eigum miklu betra skilið en þetta!

Ef þessi tæplega 40% niðurskurður verður að veruleika skora ég á ykkur að mæta til Húsavíkur og horfast í augu við okkur þegar þið segið okkur það.

Þorið þið það?

Virðingarfyllst

Hanna Jóna Stefánsdóttir

 

Bréf þetta var sent fjármála- og heilbrigðisráðherra.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744