Guðrún Árný: Hryðjuverk framin í Þingeyjarsýslum!

Í Þingeyjarsýslum er verið að fremja hryðjuverk. Hryðjuverk segi ég, því hryðjuverk eru þess eðlis að skaðinn er ekki einungis á þeim stað sem sprengjan

Guðrún Árný: Hryðjuverk framin í Þingeyjarsýslum!
Aðsent efni - - Lestrar 925

Í Þingeyjarsýslum er verið að fremja hryðjuverk. Hryðjuverk segi ég, því hryðjuverk eru þess eðlis að skaðinn er ekki einungis á þeim stað sem sprengjan fellur, heldur verður allt umhverfið fyrir alvarlegum skaða.  Áhrifin eru heldur ekki bara á þeim tíma sem sprengjan fellur, heldur hafa þau langvarandi áhrif á alla þá sem eru áhorfendur eða fórnarlömb í hryðjuverkunum.

 

Þann 1. október voru birt fjárlög ársins 2011, þ.e. tillaga ríkisstjórnarinnar að fjármögnun í ríkisrekstri. Niðurskurðurinn til heilbrigðismála eru gífurleg. Nú á að ráðast gegn minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þar skal skera niður en standa vörð um stóru sjúkrahúsin og heilsugæsluna. En hafa menn hugsað þetta til enda? Flest þessara minni sjúkrahúsa úti á landsbyggðinni eru máttarstólparatvinnulífsins á svæðinu.

 

Með þessu er verið að murka lífið úr landsbyggðinni. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, er einn stærsti vinnustaðurinn í Þingeyjarsýslum. Þar starfa 150 manns. Þar á að skera niður um 40% i heildina, en 85% á sjúkrasviði. Það þýðir í raun að verið er að leggja niður sjúkrahússtarfssemi stofnunarinnar. Hvað gerist ef 70 manns missa vinnuna? Hver verða áhrifin ef allir þessir fara á atvinnuleysisbætur? Hvað gerist ef allir þessir flytja burt? Með þeim fara makar og börn. Með þeim fer fagmennska ogþekking. Þetta er reiðarslag fyrir allt byggðarlagið. Sveitarfélagið mun missa tekjur og smá saman þurrkast sveitarfélagið út. Hvað verður um sjúklingana? Ef ekki er hægt að vera með sjúkrasvið, fellur ákveðin öryggisþjónusta niður. Íbúar geta ekki lengur treyst því að þeir fái þá bráðaþjónustu sem þeir þurfa, þeir geta ekki treyst því að fá sjúkrahúsinnlögn þegar þeir þurfa þess. Hver vill búa á stað þar sem ekki er örugg bráða- og sjúkrahúsþjónusta? Þegar einhver dettur og brýtur sig, má þá kannski búast við því að viðkomandi þurfi að fara inn á Akureyri og fá þjónustu þar? Er Sjúkrahúsið áAkureyri í stakk búið til að taka á móti öllum þeim sem ekki geta fengið þjónustu á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga? Fyrir óbreytt fjármagn? Sjúkrahúsið á Húsavík getur þá ekki létt undir með Sjúkrahúsinu á Akureyri með því að taka við sjúklingum til eftirmeðferðar og endurhæfingar þegar allt er fullt á Akureyri. Hvernig verður þá fyrir sjúklinga að leggjast inn á Akureyri? Það verður ekki pláss. Við sem hér búum munum ekki sætta okkur við þessi vinnubrögð. Ekkert samráð hefur verið haft  við stjórnendur stofnunarinnar. Við höfum staðið okkur vel í gegnum árin. Í fyrra var okkur sagt að spara um 10%. Þrátt fyrir að hafa verið í sífelldum sparnaði og baráttu í mörg ár, þá tókst okkur með samstilltu átaki frábærra starfsmanna sem lögðu bara meira á sig, að ná þessu markmiði. Þessi niðurskurður nú er  vanvirðing við allt þetta starf okkar og þá þjónustu sem við höfum veitt.

Á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er veitt góð þjónusta. Íbúar svæðisins eru ánægðir með þjónustuna skv. nýlegri könnun. Hér er faglegt starfsfólk sem leggur áherslu á umhyggju og virðingu fyrir skjólstæðingnum. Á heilsugæslustöðvar stofnunarinnar leitar  fólk með hin ýmsu heilsufarsvandamál og ef þörf er á hefur það möguleika á sjúkrahúsvist. Það leggst enginn að gamni sínum á sjúkrahúsið á Húsavík. Fólk er lagt inn á sjúkrahús þegar það þarf á því að halda, þegar það getur ekki verið heima lengur veikinda sinna vegna. Á sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga liggur fólk til að fá lækningu og hjúkrun og jafna sig á veikindum sínum. Veikindin geta verið af ýmsum toga s.s. hjartaáfall, hjartabilun, meltingarfæravandamál, krabbamein, lungnabólga, brjósklos, sýkingar og svo ótal margt fleira. Í sumum tilfellum er um banaleguna að ræða. Sjúkrahúsið hefur einnig sinnt þeim ótal mörgu sem hafa verið í aðgerðum á Sjúkrahúsinu á Akureyri og koma til Húsavíkur vegna þessað ekki er pláss til að sinna endurhæfingu þeirra þar, né á Kristnesi eða á Reykjalundi. Þess vegna er legutíminn lengri á sjúkrahúsi eins og okkar. Stofnunin hefur einnig sinnt endurhæfingar- eða hvíldarinnlögnum aldraðra einstaklinga sem eiga orðið erfitt með að vera heima eða aðstandendur eru orðnir langþreyttir vegna erfiðrar umönnunar ættingja sinna. Vegna þessarar endurhæfingar og hvíldar fyrir ættingja og maka, hefur það komið í ljós að einstaklingarnir endast lengur heima og þurfa seinna á varanlegri hjúkrunarvist að halda. Þess vegna er legutími á sjúkrahúsinu hér lengri en hann er á stóru bráðasjúkrahúsunum. Það má einnig nefna að það eru ekki um að ræða aðra kosti en innlögn á sjúkrahúsið eða í einstaka tilfellum í hvíldarpláss á Dvalarheimilinu Hvammi. Önnur ástæða þess aðsjúklingarnir dvelja oft lengur hjá okkur er að oft er um miklar vegalengdir að fara. Þú sendir ekki sjúklinginn heim á Þórshöfn og segir honum bara að koma ef eitthvað breytist eða hann versnar, það eru 2-3 tímar að keyra á sjúkrahúsið frá Þórshöfn. Nýtingin á sjúkrasviðinu hefur verið góð á undanförnum árum með 20 sjúkrarúm og nóg að gera á öllu sviðinu. Þess vegna skil ég ekki hvernig við eigum að fara að með því að láta 8 sjúkrarúm duga, ásamt því að skera niður stoðdeildirnar, þar sem um 85% niðurskurð á sjúkrasviði er að ræða. Þetta er klárlega mikil skerðing á þjónustu við sjúklinga og íbúa í Þingeyjarsýslum. Sættum við okkur við þetta? Nei, segi ég. Ég mun ekki sætta mig við þetta. Ég óska eftir viðtali við ráðherra, ráðgjafa hans og þá starfsmenn í heilbrigðisráðuneytinusem hafa komið fram þessar hugmyndir án þess að ráðfæra sig við nokkurn starfsmann á stofnuninni.

Og ef við þurfum að spara í ríkisrekstri, hvernig væri þá að spara frekar í einhverju öðru en velferðarmálum. Til dæmis mætti spara meira í utanríkismálum, rekstri sendiráða og veislum á þeirra vegum.  Eða þá í menningarmálum s.s. listamannalaunum eða byggingu menningarhalla. Eru menn ekki aðeins að ruglast í forgangsröðuninni? Hvort skiptir það meira máli, að sinna fólki sem býr eða ferðast erlendis, tengslum við aðrar þjóðir, að við fáum að njóta rándýrra listaverka eða að sinna ömmu gömlu sem er orðin of lasburða til að geta verið heima, tveggja barna móður sem er með langt genginn sjúkdóm og þarf á sjúkrahúsvist að halda, bóndanum sem býr einn og er að jafna sig eftir erfiða aðgerð, ungu konunni sem er með slæmt brjósklos, fjölskylduföðurnum sem er að deyja úr krabbameini, unga manninum sem reyndi sjálfsvíg vegna álags. Hvað finnst þér? Þú veist hvað þú myndir velja ef þetta væri spurning um einhvern þér nákominn.

Stöndum vörð um sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni. Þessi sjúkrahús eru jafn nauðsynleg og hátæknisjúkrahúsin. Stöndum vörð um sjúkrahúsið á Húsavík!

Guðrún Árný Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, þriggja barna móðir og íbúi í Þingeyjarsýslu.

Bréf þetta var sent ráðherra, þingmönnum og starfsmönnum Heilbrigðismálaráðuneytisins


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744