Guđlaug Gísladóttir: Starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss lögđ niđur frá áramótumAđsent efni - - Lestrar 675
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að leggja niður starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss til að stemma stigu við fjárlagahalla ríkisins árið 2011. Gert er ráð fyrir að Rigshospitalet í Danmörku taki yfir þjónustu Landspítalans. Með lokun Landspítalans leggjast af um 3.900 heilsársstörf og því umverulega hagræðingu að ræða á sviði heilbrigðismála.
Hvernig myndi þessi frétt hljóma í eyrum landsmanna? Eða þrjúþúsund og níuhundruð fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu sem ættu fjölskyldumeðlimi sem missa mundu starf sitt fyrirvaralaust? Að skerða fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga um 40% hefur svipuð áhrif á atvinnuframboð í Þingeyjarsýslum og þau áhrif sem lokun Landspítalans hefði á höfuðborgarsvæðið. Að spara í heilbrigðismálunum á landsbyggðinni er ekki bara mál heilbrigðisráðuneytisins, heldur allsherjar byggðarmál. Þessi gríðarlegi niðurskurður snertir allt samfélagið í Þingeyjarsýslum á alla vegu, ekki bara í formi þjónustu á sviði heilbrigðismála heldur einnig á sviði atvinnumála, félagsmála og byggðarmála. Það er ekki hægt að horfa aðeins á lítið brot af heildarmyndinni rétt eins og það er ekki hægt að fjarlægja fætur manns og ætlast til þess að hann gangi.
Við sem búum á landsbyggðinni þurfum að standa vörð um hvert einasta starf sem er í heimabyggð okkar, því hér skiptir hver einasti maður máli þegar framtíð byggðarinnar er í húfi. Ef horft er til síðastliðinna 15 ára hefur þróun í byggða- og atvinnumálum í Þingeyjarsýslum verið vægast sagt skelfileg. Íbúum hefur fækkað um 2.640 eða um 34% á meðan íbúum í landinu hefur fjölgað um tæp 20% eða 52.390 manns. Að sama skapi hefur störfum fækkað um 785 í Þingeyjarsýslum, eða um tæp 30% á meðan þeim hefur fjölgað um 25.900 á landinu öllu eða um 18%.
Ég skora á ríkisstjórn Íslands og alla þingmenn þjóðarinnar að hafna heiftarlegum niðurskurði fjárframlaga til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Fyrirætlaður niðurskurður mun særa byggðina og samfélaginu svo djúpu sári, að ekki verður hægt að "lækna" það hér í sveit. Ég vil minna núverandi ríkisstjórn á að okkur eru allar bjargir bannaðar. Hér má ekki reisa álver, en stefna ríkisstjórnarinnar til eflingar atvinnu á svæðinu er "heilsutengd ferðaþjónusta." Ég spyr, hvernig styðja fjárlög ríkisins 2011 þá atvinnugrein fyrir íbúa Þingeyjarsýslu í ljósi fyrirhugaðs niðurskurðar?
Höfundur greinar:
Guðlaug Gísladóttir, verkefnisstjóri og Húsvíkingur
Kt. 060769-4279
Tölulegar heimildir: Hagstofa Íslands, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga ogLandspítali-háskólasjúkrahús.