Gönguferðir um Jökulsárgljúfur

Jökulsárgljúfur er tilvalið land fyrir gönguferðir – draumaland göngufólks!  Landslagið er einstakt og fangar augað við hvert fótmál.  

Gönguferðir um Jökulsárgljúfur
Aðsent efni - - Lestrar 687

Jökulsárgljúfur er tilvalið land fyrir gönguferðir – draumaland göngufólks!  Landslagið er einstakt og fangar augað við hvert fótmál.

 

Fjallasýn Rúnars Óskarssonar býður nú upp á gönguferðir með leiðsögn um Jökulsárgljúfur. Þetta er nýtt að því leyti að ekki hefur áður verið boðið upp á reglubundnar dags gönguferðir með leiðsögn á svæðinu en starfsfólk þjóðgarðsins hefur um árabil boðið upp á styttri göngu- og fræðsluferðir.

 

Um tvær leiðir er að ræða og þetta árið a.m.k. er miðað við júlí. Á mánudögum og fimmtudögum verður gengið frá Dettifossi að Vesturdal og á þriðjudögum og föstudögum frá Vesturdal í Ásbyrgi.

Á leiðinni gefst tækifæri til að fá frábært útsýni yfir og inn í gljúfrin, skoða einstakar jarðmyndanir og kynnast jarðsögunni, sjá fossa og lindir, og upplifa andstæður í náttúrunni.

Leiðin frá Dettifoss að Vesturdal er um 19 km og er gert ráð fyrir að það taki um 9 klst. að fara þá leið enda margt að skoða og fræðast um á leiðinni. Ferðin hefst við Gljúfrastofu kl. 9, þaðan er ekið að bílastæði við Dettifoss þar sem gangan hefst. Farið er um Hafragils undirlendi sem er ein af erfiðustu leiðunum í Jökulsárgljúfrum en jafnframt sú mikilfenglegasta. Þegar komið er í Vesturdal bíður bíll sem flytur þátttakendur í Ásbyrgi.

Leiðin frá Vesturdal í Ásbyrgi er um 13 km og er áætlaður göngutími 4-5 klst. Þessi ferð hefst einnig kl. 9 við Gljúfrastofu, þaðan er ekið í Vesturdal þar sem gangan hefst.

Nánari upplýsingar má finna á www.fjallasyn.is Bókanir í ferðina eru hjá Fjallasýn í síma 464-3941 eða með pósti á info@fjallasyn.is  Bóka þarf í síðasta lagi kl. 20:00 kvöldið fyrir brottför. (Fréttatilkynning)

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744