Gerræðisleg geðþóttaákvörðun

Það kemur mér verulega á óvart að ég virðist vera eini maðurinn sem hef talað máli Huangs Nubo við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra um áform Huangs um

Gerræðisleg geðþóttaákvörðun
Aðsent efni - - Lestrar 660

Huang og greinarhöfundur hittust í Kína í haust.
Huang og greinarhöfundur hittust í Kína í haust.

Það kemur mér verulega á óvart að ég virðist vera eini maðurinn sem hef talað máli Huangs Nubo við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra um áform Huangs um stórfelda uppbyggingu ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Ég átti ágætan um klukkutíma langan fund fyrir um mánuði síðan með innanríkisráðherra, ráðuneytisstjóra hans og skrifstofustjóra. Á fundinum lagði ég fram minnisblað um málið en gerði forsvarsmönnum ráðuneytisins grein fyrir því að ég væri eingöngu að ræða við þau sem gamall skólafélagi og vinur Huangs. Aðrir færu með umboð hans hér á landi og formleg samskipti. Þá bauðst ég til að koma á fundi milli ráðuneytisins og Huangs til að fara efnislega ofan í áform hans og fyrirætlanir hér á landi.

Ég hitti Huang fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan í Beijing þegar ég fylgdi dóttur minni til náms í Kína. Ég bauðst til að tala máli hans við stjórnvöld og aðra aðila sem málið varðar hvað ég hef og gert. Hef rætt málið við nokkra ráðherra og þingmenn. Auk þess bauðst ég til að hafa milligöngu um að koma á fundi með Huang og forsvarsmönnum verkalýðshreyfingar og ferðamálasamtaka á Norðurlandi að þeirra frumkvæði. Af því hefur ekki orðið enda búið að kæfa málið í fæðingu.


Ekki boðlegt svar

Eftir að erindi Huangs hefur verið þrjá mánuði til ítarlegrar skoðunar af lögfræðingum innanríkisráðuneytisins, að sögn ráðherra, hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að fjárfestingaráform Huangs uppfylltu ekki lagaskilyrði um erlendar fjárfestingar hér á landi. Það hefur legið fyrir frá upphafi málsins enda sótt um undanþágu vegna umræddra laga. Ella hefði það verið óþarfi. Með svari innanríkisráðherra er því verið að hafa málsaðila að fíflum og reyndar þjóðina alla. Enginn var að biðja ráðuneytið að úrskurða um hvort umrædd fjárfestingaráform uppfylltu almenn lagaákvæði um erlendar fjárfestingar á Íslandi. Um það er enginn ágreiningur enda umrædd lög býsna skýr og ekki deilt um túlkun þeirra. Það getur hver meðalgreindur hálfviti sem les lögin séð. Ráðherrann er því að lítillækka lögfræðinga ráðuneytisins með að halda því fram að það hafi tekið þá þrjá mánuði að komast að þeirri niðurstöðu. Málið snýst um komast að málefnalegri niðurstöðu um undanþágubeiðnina.


Ekki boðleg stjórnsýsla

Það er áhyggjuefni hversu slæm stjórnsýsluleg meðferð ráðuneytisins er í þessu máli. Það virðast brotnar allar meginreglur góðrar stjórnsýslu. Ekkert hefur verið rætt við málsaðila eða leitað eftir þeirra sjónarmiðum. Á það jafnt við um kaupendur og seljendur. Ekkert samráð er haft við sveitarfélagið Norðurþing sem fer með skipulagsvaldið á Grímsstöðum eða leitað álits þeirra um hvort áform Huangs samrýmist stefnu sveitarfélagsins í atvinnu- og ferðamálum. Ekkert samráð var haft við samtök ferðaþjónustu á svæðinu. Ekkert samráð var haft við aðra ráðherra ríkistjórnarinnar sem fara með erlendrar fjárfestingar- utanríkis-, viðskipta- eða ferðamál eins og fram hefur komið í fréttum. Innanríkisráðherra hefur því hagað sér eins og óforbetranlegur einræðisherra í þessu máli frá upphafi til enda. Ef eitthvað hefur lent á hans borði í þessum máli er það frumkvæði annarra en ráðuneytisins. Ögmundur hunsar algjörlega vilja heimamanna í þessum máli.

Undirritaður hefur starfað að sveitarstjórnarmálum í hálfa þriðja áratug og hefur víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum. Innanríkisráðuneytið er úrskurðaraðili í kærum sem lúta að stjórnsýslu sveitarfélaga. Hræddur er ég um að hvert það sveitarfélag sem hefði verið kært fyrir að standa jafn illa að stjórnsýslulegri afgreiðslu og innanríkisráðuneytið nú hefði fengið bágt fyrir. Ráðherra er því að grafa undan virðingu ráðuneytisins og góðrar stjórnsýslu í landinu. Hér virðist því vera um gerræðislega geðþóttaákvörðun að ræða.


Engin málefnaleg nálgun

Á fundi mínum með innanríkisráðherra og hans fólki lagði ég áherslu á að menn nálguðust málið á málefnalegum nótum eins og fram kom í minnispunktum sem ég lagði fram. Grundvallaratriðið varðandi undanþágubeiðnina væri að meta hvort og hvernig hún samræmdist stefnumótun stjórnavalda og hvort hún væri í þágu almannahagsmuna.

Eins og fram hefur komið hyggst hann reisa 5 stjörnu hótel á Grímsstöðum á Fjöllum og í kjölfarið 5 stjörnu hótel á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu fyrir sunnan. Um það var hans ætlan að stofna íslenskt fyrirtæki sem síðan væri miðstöð fyrir frekari fjárfestingar á Norðurlöndum. Fyrir þá sem ekki vita hefur verið stundaður búskapur á Grímsstöðum í gegnum aldirnar og tún ræktuð og hirt. Reynt er að gera lítið úr áformum Huangs um hugsanlegan golfvöll á Grímstöðum og dæmi um fávisku hans um Ísland. Hann veit mæta vel að á Grímstöðum vex gras og til þess að búa til golfvöll þarf gras. Hann hugsaði sér að breyta túnunum á Grímsstöðum í golfvöll líkt og gert hefur verið um allt Ísland á umliðnum árum. Að öðru leyti ætlaði hann að vernda jörðina í upprunalegri mynd og bauð upp á þann möguleika að hluti hennar yrði lagður til Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ekki virðist á nokkurn hátt hafa verið reynt af hálfu innanríkisráðuneytisins að nálgast málið á málefnalegum nótum. Verra er þegar menn kunna ekki almenna mannasiði en fara þess í stað með dylgjur og hálfkveðnar vísur. Allt stjórnavald hvort heldur er á sviði sveitarstjórna eða ríkisins verður að sýna háttvísi og gæta þess að láta persónuleg pólitísk sjónarmið eða persónuleg vinatengsl villa sér sýn.


Lúkasarheilkennið

Stundum virðist Lúkasarheilkennið hrjá þjóð mína og birtist einkum í tölvuheimum. Menn halda ekki vatni yfir einhverju sem ekki á sér neina stoð í raunveruleikanum líkt og meint dráp og hroðaleg meðferð á hundinum Lúkasi sem sennileg lenti bara á lóðarí eða var leiður á eigendum sínum.

Fyrst var farið að tala um að kaup Huangs tengdust Norðurpólssiglingum en Dettifoss var óskipgengur síðast þegar ég vissi. Þá er talað um að Kínverjar ætli sér að reisa þar herstöð. Það er bullað út og suður um að tilgangur Huangs sé allur annar en hann hefur opinberlega lýst yfir, þ.e að byggja um hótel og reka vistvæna ferðaþjónustu. Étur þar vitleysuna hver eftir annan og fólk skirrist ekki við að bera á hann alls konar sakir í nafni þess að vera gagnrýnið án þess að það sé nokkur flugufótur eða minnstu vísbendingar um vafasaman ásetning eða vafasama fortíð. Honum er líkt við okkar útrásarvíkingana án þess að nokkurn tímann nokkru sinni hafi verið bent á eitt einasta dæmi því til stuðnings.

Hríðskotaárásin er hafin án þess að nokkur hafi séð ástæðu til að spyrja um eitt eða neitt samkvæmt orðtakinu ,,skjóta fyrst og spyrja svo".


Sala lands milli einkaaðila

Fullyrt hefur verið trekk í trekk að þjóðin sé að afsala sér ekki bara landi heldur hugsanlegum auðlindaréttindum sem því fylgja. Það er alrangt. Almenningur í landinu á ekkert í því landi sem til sölu er og ekkert í þeim réttindum sem því fylgja. Ríkið á um 25% í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum og samsvarandi rétt varðandi vatnsréttindi, hugsanlegan námurétt og önnur þau réttindi sem jörðum fylgir. Ríkið er ekki að selja sinn hlut í jörðinni. Það breytir engu um lög og rétt gagnvart eignarhaldi og nýtingu jarðarinnar hvort eigandi um 75% jarðarinnar í einkaeign heitir Ævar eða Huang. Það breytir engum um rétt til að nýta jörðina eða nýta hana ekki. Það breytir engu skipulagsmál á svæðinu, umferðarétt almennings né um reiðleiðir. Umferðarréttur er tryggður í lögum. Það gilda íslensk lög um jarðnæðið og alla þá starfsemi sem þar kann að fara fram. Ef að gull finnst á svæðinu, eins og einhver nefndi, breytir engu gagnvart þjóðinni hvort 75% eigandi heitir Ævar eða Huang. Þjóðin á eingöngu tilkall til 25% af arðinum ef til kæmi. Huang hefur hins vegar boðist til að ræða við stjórnvöld og semja um hugsanlegt afsal á ákveðnum jarðarréttindum ef til kaupa kæmi. Með því gæti þjóðin, ríkið, eignast víðtækari rétt til hugsanlegra auðlinda á svæðinu en nú er. En ósk hans viðræður og samninga er virt að vettugi.

Þrátt fyrir lög þarf ríkisvaldið að sýna fram á ríka hagsmuni til að standa gegn viðskiptum tveggja einkaaðila. Um það snýst undanþágugrein laga um jarðarkaup. Ef ekki eru málefnaleg rök fyrir því að hafna slíkum viðskiptum gengur það augljósleg gegn stjórnarskránni en enn hefur ekki verið lagt til að afnema friðhelgi eignarréttarins. Stjórnvöld eins og aðrir geta ekki horft fram hjá stjórnarskránni eða leyft sér að hundsa hana ef þeim sýnist svo.

Rétt er að taka fram að ég þekki ekkert til seljanda jarðarinnar. Það liggur hins vegar fyrir að þeir treysta sér ekki lengur til að yrkja jörðina og láta hana þannig skila arði til samfélagsins. Huang er hins vegar tilbúinn til að nýta jörðina samfara verndun hennar og skila þannig arðsemi til samfélagsins, bæði ríkis og sveitarfélags, svo ekki sé minnst á að skapa atvinnu fyrir vinnufúsar hendur sem allt of margar fá ekkert að gera. Það er kaldhæðni örlaganna að það er gamall verkalýðsforingi sem stendur gegn atvinnusköpun og kemur þannig í veg fyrir að hundruð atvinnulausra einstaklinga fái vinnu.


Get ekki orða bundist

Umræðan um minn gamla kæra vin Huang Nubo hefur verið með þeim hætti að ég get ekki orða bundist. Fjöldi fólks hefur rægt hann og ætlað honum illar hvatir án þess að þekkja nokkuð til hans eða hafa fyrir því hin minnstu rök. Ég sé mig því knúinn til að andmæla íslenskum mannorðsmorðingjum. Huang er einstaklega ljúfur og traustur einstaklingur, kraftmikill og skemmtilegur. Um það getum við sem höfum kynnst honum náið staðfest. Ég ræddi við Huang góða stund um áform hans þegar ég hitti hann í haust. Hann var mjög spenntur fyrir verkefninu en sagðist jafnframt ekki nenna að standa í neinu orðaskaki við stjórnvöld á Íslandi ef hann væri ekki velkominn til landsins.

Nú tala menn með lítilsvirðingu um að hann sé hættur við og farinn í fýlu. Ætlast menn virkilega til að hann komi skríðandi á hnjánum til biðja um að fá að leggja í þá djörfu og áhættusömu fjárfestingu sem um ræðir. Hann hafði áform um að fjárfesta í Norðurevrópu á sviði ferðamála með Íslands sem miðstöð. Sjálfsagt fer hann eitthvað annað fyrst hann er ekki velkominn hingað.

Rétt er að geta þess að Huang litli, eins og ég kallaði hann í skóla, er í engri fýlu og eflaust tilbúinn að standa við áform sín ef stjórnvöld sýna til þess einhvern vilja.



Höfundur er sveitarstjóri í Þingeyjarsveit,
fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði,
fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
og gamall skólafélagi Huangs Nubo í Pekingháskóla


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744