Erla Sigurðardóttir: Ágætu ráðherrar!

Á hverjum degi í hátt í níu ár hef ég verið þakklátari en áður  fyrir að búa í landi þar sem öryggi og grunnþjónusta við íbúanna óháð búsetu er í

Erla Sigurðardóttir: Ágætu ráðherrar!
Aðsent efni - - Lestrar 907

Á hverjum degi í hátt í níu ár hef ég verið þakklátari en áður  fyrir að búa í landi þar sem öryggi og grunnþjónusta við íbúanna óháð búsetu er í fyrirrúmi. Ég hef haft sérstaka ástæðu til að vera þakklát, þegar alvarleg fötlun sonar míns var staðfest af læknum á LSH þurfti  fjölskyldan búsett norður á Húsavík að skoða allar forsendur upp á nýtt. Hvar gátum við búið, hvar var sú þjónusta sem skipti máli varðandi okkar búsetu?

Við spurðum ráða þar sem við vissum von á bestum svörum, hjá læknum á LSH, þeim bar öllum saman. "Ykkur er best borgið heima á Húsavík, þar er öflug félagsþjónusta og heilbrigðisstofnun, gott lið færra lækna og hjúkrunarfólks." Við treystum þessum ráðleggingum og snerum heim. Þökk öflugu velferðar-  og heilbrigðiskerfi sem tryggði jafnrétti allra landsmanna svo sem unnt er,var röskunin á lífi okkar langt í frá  jafn mikil og við óttuðumst í fyrstu. Við höfum ekki séðeftir þessari ákvörðun, þjónustan hefur staðist væntingar og við eigum hér gott líf í samfélagi þar sem öll grunnþjónusta er til staðar. Með frumvarpi til fjárlaga 2011 hyggist þið, ríkisstjórn Íslands, búa svo um hnútana að jafnvel venjulegar fjölskyldur þar sem ekki er við fötlun eða vanheilsu að glíma þurfi að spyrja sig tvisvar hvort þeim er óhætt að búa í Þingeyjarsýslu. Hver  vill setjast að og stofna fjölskyldu þar sem heilbrigðisþjónusta er í þvílíku lágmarki að öryggi íbúanna má jafnvel teljast ógnað?

 

Þingeyingum, sem telja innan við 2% landsmanna er gert að taka á sig 10% af allri skerðingu í heilbrigðiskerfinu. Áætluð skerðing á framlögum til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga er um 40%. Fyrirsjáanlegt er að stór hluti þjónustu stofnunarinnar mun leggjast af og þar með grundvöllur fyrir þær sértekjur sem stofnuninni er ætlað að afla, skerðingin verður því í raun mun meiri en 40%. Hverju má þetta sæta? Erum við svo fá að við bara skiptum ekki máli? Eru lífskjör þessa fámenna hóps afgangsstærð í hinni stóru mynd? Eða eru ef til vill "sumir jafnari en aðrir" og núverandi ríkisstjórn ekki ríkisstjórn Íslands heldur ríkisstjórn "borgríkisins Íslands?" Þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga er stórt og dreifbýlt, um 18.200 km2 eða tæp 18% landsins. Að gera sambærilegar kröfur til fjölda legudaga á sjúkrahúsum sem þjóna dreifðum landbúnaðarsvæðum og þéttbýlissjúkrahúsa er hjákátlegt. Að mæta færri legurýmum með eflingu heimaþjónustu er ekki raunhæfur kostur í dreifbýli,þetta vitið þið ágætu ráðamenn ef þið bara einu sinni viljið. Jafnræði íbúanna felst ekki í því að þjónustan sé alls staðar eins, heldur í að þjónusta sé löguð að aðstæðum svo aðgengi og öryggi íbúanna megi verða sem jafnast. Það er hörmulegt til þess að vita að sú ríkisstjórn sem kennir sig við norrænt velferðarkerfi gerist sek um þá mismunun sem boðuð er í fumvarpi til fjárlaga. Ekki aðeins mismunun heldur svo stórfelldan niðurskurð að við íbúar í Þingeyjarsýslu eigum erfitt með að túlkafjárlagafrumvarpið sem annað en atlögu að okkar samfélagi. Verði fyrirhuguð skerðing á fjárframlögum til HÞ að veruleika hefur það víðtækar afleiðingar, ekki aðeins á þjónustu HÞ heldur aðra þjónustu í samfélaginu.

Samfélag sem í góðri trú hefur lagt ómælt af mörkum til að standa vörð um þjónustuna er illa svikið. Eignir okkar verðfelldar í einu vetfangi og allt tal um atvinnuuppbyggingu á svæðinu verður falskt og hjáróma þegar forsendum uppbyggingar og búsetu er hnekkt. Það er fáheyrt að ríkisstjórn standi fyrir "atgerfisbrottrekstri" úr heilu byggðarlagi, ekki síst á þeim tímum þegar barátta gegn atgerfisflótta frá dreifðari byggðum er eitt helsta viðfangsefni stjórnenda í nágrannalöndum okkar.

Ég skora á ríkisstjórn Íslands að endurskoða tillögur um niðurskurð á Þingeyingum, það verður enginn minni maður af því að endurskoða afstöðu sína, eða eins og góður granni minn í sveitinni sagði: "Hafi ég skipt um skoðun er það vegna þess að mér hefur vaxið vit."

Erla Sigurðardóttir

Bréf þetta er sent heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra ogaðstoðarmönnum þeirra.

Afrit fá þingmenn Norðausturkjördæmis.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744