ÉG OG MOTTUMARS 2013 – opið bréf til Íslendinga frá Baldri Ragnarssyni þann 22. febrúar 2013

Góðan dag! Ég heiti Baldur Ragnarsson og ég ætla að taka þátt í Mottumars 2013.

Baldur Ragnarsson.
Baldur Ragnarsson.

Góðan dag!

Ég heiti Baldur Ragnarsson og ég ætla að taka þátt í Mottumars 2013. Ef til vill muna einhverjir eftir þátttöku minni í Mottumars 2012 en þá tók ég þátt í fyrsta skipti. Nálgun mín í fyrra var ljósmyndaþema þar sem ég birti með reglulegu millibili hæfilega alvörugefnar myndir eftir því sem áheitin hækkuðu (myndirnar er hægt að sjá hér: http://on.fb.me/139lXvd). Uppátækið náði athygli þónokkuð margra og vakti vonandi kátínu flestra. Það sem mestu máli skiptir þó er að með þessu uppátæki náði ég að safna saman talsverðu fé til þessa verðuga málefnis. Nú langar mig að ganga enn lengra og eftir skipulagningu, umhugsun, nokkuð mörg símtöl og ákaflega jákvætt viðmót allra sem ég hafði samband við er eftirfarandi niðurstaðan:

Myndauppboð. Næstum því ljósmyndauppboð, en þó ekki alveg.

Ég hef ákveðið að bjóða upp eina mynd í viku á Fésbókarsetri mínu, www.facebook.com/baldurragn og hef fengið til liðs við mig ljósmyndara og listamenn sem sumir tengjast mér á einhvern hátt á meðan aðrir gera það minna. Allir eiga þessir heiðursmenn það þó sameiginlegt að hafa tekið gríðarlega vel í bón mína um að vera með. Þannig spannar uppboðið í heild sinni 5 vikur, fyrsta mynd verður kynnt á mánudaginn kemur, 25. febrúar, og slegin hæstbjóðanda viku síðar, þann 4. mars. Þá verður mynd númer tvö afhjúpuð og svona gengur þetta koll af koll þar til síðasta myndin hverfur til nýs eiganda síns þann 1. apríl.

Þessir eiga myndir á uppboðinu:

INGÓLFUR JÚLÍUSSON (250213–040313)

Ingólfur er góðvinur minn og félaga minna í Skálmöld. Ingó hefur komið að því að taka kynningarmyndir fyrir sveitina, verið okkur innan handar með víkingabúnað, vopn og verjur, enda annálaður áhugamaður um víkinga og einhvernveginn verið samtíða sveitinni frá upphafi. Að auki tengist Ingólfur málefninu frá fleiri hliðum því hann háir nú sitt eigið stríð við krabbameinið.

LÁRUS SIGURÐARSON OG HALLMAR FREYR ÞORVALDSSON (040313–110313)

Aftur Skálmaldartenging. Hallmar er frá Húsavík líkt og ég sjálfur og einn af betri vinum Snæbjörns bróður míns. Habbi er myndvinnsluundrabarn og kom að allri ímyndarvinnu og myndvinnslu Skálmaldar í upphafi og á því stóran þátt í ímynd bandsins. Lalli var kannski ekki með alveg frá upphafi en hefur með tíð og tíma orðið hirðljósmyndari Skálmaldar og tekur meira og minna allar kynningarljósmyndir fyrir okkur í dag. Saman hafa þeir svo unnið ótrúlegar myndir, bæði fyrir okkur og aðra og gerðu eina mynd fyrir mig í fyrra (http://on.fb.me/VF8Nsq).

JÓNATAN GRÉTARSSON (110313–180313)

Jónatan kom líka að Mottumars í fyrra (http://on.fb.me/UDtvHg). Við þekkjumst ekki mikið en eigum talsvert marga sameiginlega vini og að hans frumkvæði tók hann mynd af mér fyrir Mottumars í fyrra (http://on.fb.me/UDtvHg). Það kunni ég gríðarlega vel að meta og þar af leiðandi fannst mér sjálfgefið að tala við hann núna.

HUGLEIKUR DAGSSON (180313–250313)

Hugleik þekki ég ekkert en mér finnst hann næstum því alltaf alveg brjálæðislega fyndinn. Fyrst og fremst hafði ég samt samband við hann vegna þess að mig langaði til þess að útvíkka þetta myndakonsept svolítið, ekki bara einskorða mig við ljósmyndir. Þess má geta að ég veit ekkert hvernig hann ætlar að leysa þetta mál.

RAGNAR AXELSSON „RAX“ (250313–010413)

RAX hafði fylgst með Mottumars í fyrra og fannst uppátækið mitt skemmtilegt. Stórvinur minn og ljósmyndari, Heiddi Gutta, hafði unnið með honum á Mogganum og talaði svona líka vel um hann. Ég hafði lengi dáðst að verkunum hans og því óhætt að segja að ég hafi orðið kátur þegar hann tók svona líka vel í það að vera með.

Allar verða myndirnar prentaðar í stærðinni 40 x 60 cm, ýmist á ál eða striga, eitt stykki af hverri. Myndirnar verða allar af mér og ég verð vitanlega með mottu á þeim öllum.

Listamennirnir gefa allir vinnu sína, líkt og aðrir sem koma að þessu. Og það eru þónokkuð margir. Um uppboðs-appið og alla umsýslu á Facebook, sjá snillingarnir hjá PIPARTBWA annarsvegar og Smartmedia hins vegar. Þetta er talsvert umstang og gersamlega ómetanlegt. Pixlar gefa prentunina eins og hún leggur sig sem er ekki síður höfðinglegt. Ýmsir hafa lagt til fatnað og annað fyrir myndatökur, Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, Brúðarkjólaleiga Katrínar, fleiri fyrirtæki, sem og vinir og vandamenn. Verndari mottunnar er síðan Stjúri rakari en hann hefur nú þegar tekið nokkra snúninga á mottunni niðri í rakarahorninu sínu hjá Kormáki og Skildi.

Rétt er að árétta að ég hyggst ekki láta ágóðann af uppboðinu renna saman við áheitin í sjálfum Mottumars. Þar kem ég til með að taka þátt líkt og í fyrra en læt þó uppboðið standa fyrir utan þá söfnun. Því á örugglega eftir að fylgja glens og grín og ýmislegt skemmtilegt.

Og þannig er nú það. Fyrirtæki og fjársterkir aðilar koma vonandi til með að finna sig í því að styrkja málefnið með þessum hætti (og eignast þannig ómetanlegar myndir af mér) en fyrst og fremst er það ósk mín að þetta verði skemmtilegt. En við þurfum samt pening því krabbamein er hálfviti.

Góðir Íslendingar, þetta verður gaman!

Baldur Ragnarsson


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744