Bleikur októberAðsent efni - - Lestrar 402
Októbermánuður hefur síðustu árin verið tileinkaður átaki Krabbameinsfélagsins til að vekja athygli á brjóstakrabbameini kvenna. Í ár er árvekniátakinu beint að konum og krabbameini almennt. Til að vekja athygli fólks á þessu átaki hefur bleiku ljósi verið varpað á hinar ýmsu stofnanir um allt land.
Hér á okkar svæði ætlum við, eins og síðustu ár, að lýsa upp kirkjurnar okkar, Húsavíkurkirkju, Grenjaðarstaðarkirkju,Einarsstaðakirkju, Skútustaðakirkju, Þorgeirskirkju og Reykjahlíðarkirkju. Einnigætlum við að lýsa upp fossinn í Búðaránni, Gamla spítalann og Framhaldsskólann á Húsavík. Bleika slaufan sem er seld sem söfnunarátak til rannsókna á konum og krabbameini, verður að sjálfsögðu seld um allt land. Á okkar svæði verður hún seld hjá Frumherja, í Kaskó, í Úrvali, hjá Póstinum og í Lyfju. Í tilefni af þessu átaki ætlum við einnig að veita hvunndagshetjum á okkar svæði viðurkenningu með því að afhenda þeim fyrstu slaufurnar. Á döfinni hjá félaginu er að halda bleika boðið okkar sem tókst svo dæmalaust vel í fyrra.Boðið verður þann 28. október, en þetta verður nánar auglýst síðar. Konur, takið daginn frá.
Ágætu konur, við bendum ykkur einnig að huga að vel að heilsu ykkar. Krabbameinsfélag Íslands setti fram þessi 10 atriði sem konur geta nýtt sér til að bæta heilsu sína og minnka líkurnar á að fá krabbamein.
Heilsuboðorð Krabbameinsfélagsins
1. Reykjum ekki og forðumst reyk frá öðrum. Notum ekki munn- eða neftóbak
2. Hreyfum okkur að minnsta kosti í hálfa klukkustund á dag
3. Borðum hollan og fjölbreyttan mat svo sem grænmeti og ávexti
4. Forðumst að vera of þung
5. Takmörkum neyslu áfengra drykkja
6. Vörumst ljósabekki og óhófleg sólböð
7. Leitum læknis ef við verðum vör við óeðlilegar breytingar á eða í líkamanum
8. Fylgjum leiðbeiningum um meðferð efna og efnasambanda, sem sum eru krabbameinsvaldandi
9. Konur eru hvattar til að fara reglulega í leghálsskoðun eftir tvítugt
10. Konur eru hvattar til að skoða brjóst sín mánaðarlega og fara reglulega í brjóstamyndatöku eftir fertugt
Að lokum skorum við á fagfólk og aðra sem hafa þekkingu og áhuga á heilsu og forvörnum gegn krabbameini að skrifa greinar í Skarp í október til að vekja athygli á málefninu.
Krabbameinsfélag Suður Þingeyinga
Gunna, Rikka og Ingó