Bíóklúbburinn fer af stað á nýju áriAðsent efni - - Lestrar 605
Í haust sem leið var stofnaður mjög svo frjálslegur bíóklúbbur á Húsavík, utanumhald er í höndum Siggu Hauks og Arnhildar Pálma í Túni, Helgu Bjargar í grænu versluninni Fiðrildi & Fellibylur og Hjálmars Boga, formanns.
Tilgangur klúbbsins er meðal annars að bjóða öllum 16 ára og eldri sem áhuga hafa á kvikmyndum að njóta kvöldstundar í góðum félagsskap, nýta góða aðstöðu í Túni og efla félagslífið í bænum. Ákveðið var að koma saman hálfsmánaðarlega og horfa á örlítið öðruvísi myndir, helst þá myndir sem unnið hafa til verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og hefur aðallega verið leitað í eðalútgáfu Græna Ljóssins hingað til.
Fyrir áramót horfðum við t.d. á myndina Catfish, frábæra heimildarmynd um blekkingar á veraldarvefnum og er Facebook þar í þó nokkru hlutverki. Einnig horfðum við á Woody Allen myndina “You will meet a tall dark stranger”, frönsku myndina um Nikulás litla og dönsku myndina Hævnen, allt saman góðar myndir sem vekja áhorfandann til umhugsunar.
Nú er klúbburinn að fara af stað á nýju ári og fyrsta myndin sem sýnd verður er sænska myndin Svinalängorna með Noomi og Ola Rapace í aðalhlutverkum. Okkur langar til að hvetja alla áhugasama að byrja árið með okkur og mæta í menningarhúsið Úti á Túni í kvöld, húsið opnar kl. 20:00 og sýningin hefst stundvíslega kl 20:30, ekkert hlé er á sýningunni.
Aðgangseyrir er enginn en eins og í alvöru bíói er hægt að fá sér popp og kók fyrir sýningu. Sjáumst !