Berum ábyrgð

Að læra af öðrum Ég var stoppuð á götu fyrir skemmstu af heldri konu sem hrósaði mér fyrir grein sem ég átti í Skarpi, þá skömmu áður. Ég varð auðvitað

Berum ábyrgð
Aðsent efni - - Lestrar 398

Huld Hafliðadóttir.
Huld Hafliðadóttir.

Að læra af öðrum
Ég var stoppuð á götu fyrir skemmstu af heldri konu sem hrósaði mér fyrir grein sem ég átti í Skarpi, þá skömmu áður. Ég varð auðvitað afskaplega glöð og brosti út að eyrum. Áður en við kvöddumst eftir þessi fáu orðaskipti, segir hún við mig: ,,Veistu, ég ætla að læra af því sem þú skrifaðir!”
Mikið fannst mér merkilegt að heyra þessi orð, þá sérstaklega í ljósi þess að viðmælandi minn var eflaust hátt í 50 árum eldri en ég.
Ég ákvað að læra af þessari konu. Læra það að ég get lært af öllum í kringum mig, alltaf. Allir hafa eitthvað fram að færa, jafnt ungir sem aldnir. Það er mitt að hlusta og leita eftir því. Allt of oft finnum við okkur í því að dæma aðra, hvað þeir segja eða hvernig, hvað þeir gera eða gera ekki. Hversu mikilli orku eyðum við í að velta okkur upp úr öðrum? Dýrmætri orku sem við gætum nýtt í eitthvað svo miklu miklu uppbyggilegra fyrir okkur sjálf? Hvers vegna ekki að hugsa eins og þessi ákveðna kona: “Ég ætla að læra af þessu!”? Hvort sem það á við um framkomu annarra eða okkar eigin.

 


Fortíðin er liðin
Mér finnst til að mynda fátt leiðinlegra en rifrildi um pólitík. ,,Ef þessi hefði ekki gert þetta og þessi hitt, þá væri þetta allt miklu betra”. Fyrir mér er slík hugsun sóun á orku, þó eflaust hafi einhverjir gagn og gaman af slíkum rifrildum. Ég tel mikilvægara fyrir okkur öll að við getum horft til baka gagnrýnum augum og séð hvað hefði betur mátt fara. Að við getum séð það sem okkur er ætlað að læra af hverjum atburði fyrir sig, að við getum séð hvar okkar ábyrgð liggur, í stað þess að hendast áfram í fússi og fýlu yfir því að einhver annar hafi eyðilagt allt. Þetta er ekki svo einfalt, við berum öll ábyrgð. Sem einstaklingar berum við ábyrgð á okkar eigin hamingju. Hún kemur ekki innpökkuð í sellófan með annarri manneskju eða nýjum bíl. Við berum ábyrgð á ótal hlutum í kringum okkur, þrátt fyrir að hafa svo sterka tilhneigingu til að koma ábyrgðinni yfir á aðra. Við kjósum okkur t.d. fólk til að vinna í okkar þágu í sveitarstjórn. Þar er okkar ábyrgð. Við berum ábyrgð á því að koma skoðunum og hugsunum okkar á framfæri, því ekki getum við búist við að aðrir lesi hugsanir okkar. Umfram allt við berum ábyrgð á okkur sjálfum, orðum okkar og gjörðum.

 

Byrjum núna
,,Og hvað? Hvað ætlar þú að gera?” sagði góð vinkona mín eftir að hafa lesið áðurnefnda grein mína. Grein sem bar yfirskriftina ,,Hvað get ég gert?” Já, góð spurning hugsaði ég. Hvar og hvernig er best að byrja þessa uppbyggingu sem ég tala um? Jú, með sjálfri mér. Sem íbúi sveitarfélagsins ber ég ábyrgð á því hvernig ég geng um og hugsa um það. Hvílíkur máttur sem máttur hugsana er! Ef ég hugsa ekki vel til sveitarfélagsins míns, staðarins sem ég hef kosið að búa á, hvernig get ég ætlast til að mér líði vel á þeim stað? Ef ég kann ekki að meta það sem hann hefur að bjóða mér núna? Hvernig get orðið sátt ef hugsun mín er föst í hringekju skortsins? Að það lagist ekkert fyrr en þetta gerist eða hitt? Eitt veit ég fyrir víst, að þann sem skortir hvað mest, verður seint og illa fullnægt. Verum þakklát fyrir það sem við höfum nú þegar og hlúum að því, hvort sem það er fólkið í kringum okkur, heimili okkar, sveitarfélagið eða náttúran, svo dæmi séu tekin. Það er svo margt sem við getum gert sem íbúar: að koma vel fram við hvert annað er alltaf góð byrjun, að hreinsa til eftir okkur sjálf einnig.

Margt smátt
Við eigum ótal mörg fyrirtæki sem geta átt framtíðina fyrir sér. Hvernig væri td. að koma þeim á framfæri við þá þúsundir ferðamanna sem eiga hér leið um? Í stað þess að sitja og bíða eftir að einhver ferðamaður villist upp fyrir bakkann eða framhjá kirkjunni. Við þurfum yfirleitt að færa fórnir til að öðlast, það að sitja og bíða er og hefur alltaf verið afar langsótt leið til farsældar. Sjálf hef ég unnið við ferðaþjónustu sl. 8 sumur og hversu oft hef ég verið spurð um eitthvað íslenskt, jafnvel þingeyskt til kaups! Ótal sinnum. Fiskur, hreindýr, kjöt, grænmeti, ullarvettlingar, húfur, listaverk, bakkelsi, þetta eru allt afurðir sem ég hef verið spurð um og það sem meira er, þetta er allt eitthvað sem við höfum að bjóða! Leggjum okkur aðeins fram og bjóðum þetta markvisst! Ekki bara þeim sem óvart villast eða muna eftir að spyrja, bjóðum þetta líka þeim sem hafa ekki kjarkinn til að villast eða spyrja. Berum ábyrgð!

 



 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744