Að snúa heim að námi loknuAðsent efni - - Lestrar 495
Senn líður að því að ég klára framhaldsskólanámið mitt og held á vit nýrra ævintýra, í háskóla. Framundan eru spennandi tímar og ég þarf að fara að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. En hvað svo? Hvað gerist að námi loknu? Hvar kem ég til með að búa? Get ég komið aftur heim? Óteljandi spurningar brenna óneitanlega á vörum mínum og fjölmargra annarra í mínum sporum. Ég veit ekki svörin en ég veit það að mig langar að sjá okkar litla samfélag eflast og þróast með þeim hætti að ungt fólk sjái tækifæri sín liggja í því að koma aftur heim að námi loknu og setjast hér að. Mig langar að hafa áhrif á það hvernig mitt samfélag byggist upp og þess vegna finnst mér mikilvægt að hugmyndir og skoðanir unga fólksins fái líka að njóta sín.
Til að svo verði, að ungt fólk komi til baka að loknu námi, þarf margt að breytast að mínu mati og grunnurinn að því er að það þurfa þá að vera störf í boði fyrir þá einstaklinga sem kjósa að koma heim eftir nám.
Vernda störf og skapa fleiri
Fyrir það fyrsta þurfum við með öllum tiltækum ráðum að vernda öll þau störf sem eru í okkar sveitarfélagi í dag, og stuðla að því að hér skapist eins mörg og fjölbreytt störf og kostur er. Við höfum margt mjög gott í okkar samfélagi, til að mynda eru hér á Húsavík mjög góðir skólar, Borgarhólsskóli, Tónlistarskólinn og Framhaldsskólinn, sem þarf að byggja upp og vernda eins og kostur er.
Við eigum líka mjög góða heilsugæslu hér á svæðinu með mjög góðu fagfólki, hér er rekið stórt og myndarlegt dvalarheimili fyrir aldraða, þar sem rekin er mjög fagleg og góð starfsemi og m.a. eru rekin tvö sambýli fyrir fatlaða sem veita þeim einstaklingum sem þar dvelja alla þá þjónustu sem best þau geta hverju sinni.
Þessi tilteknu fyrirtæki og stofnanir sem nefndar eru hér að ofan eru dæmi um fyrirtæki sem þurfa á fagmenntuðu starfsfólki að halda. Þau eru því hluti af því að skapa þá umgjörð að ungt fólk sem kemur úr námi hafi að einhverju að stefna hér heima og að það geti fundið störf við hæfi og því verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur að halda þessum störfum.
Menning er mikilvæg
Það er ekki nóg að hafa úrval af störfum í boði því maðurinn er félagsvera og endist sjaldan á einum stað út af vinnunni einni saman. Það þarf meira til og því nauðsynlegt að huga að félagslífi og möguleikum ungs fólks í bænum. Með eflingu menningar hér heima í héraði, t.d. með fjölbreyttum menningarviðburðum, nýju húsnæði handa leikfélögunum og opnun ungmennahús/félagsaðstöðu erum við á góðri leið.
Framundan eru tímar tækifæra og vona ég að við getum nýtt þau tækifæri sem bjóðast til að efla mannlíf í sveitarfélaginu og gera það ákjósanlegt fyrir okkur unga fólkið að snúa aftur heim.