„Kiwanisfélaginn"

Hugleiðingar frá forseta Skjálfanda.

„Kiwanisfélaginn"
Aðsent efni - - Lestrar 736

Egill Olgeirsson forseti Skjálfanda. Lj. Halli Sig
Egill Olgeirsson forseti Skjálfanda. Lj. Halli Sig

Hef oft velt því fyrir mér hvað er átt við með hugtakinu „góður kiwanisfélagi“ og hvernig á félagi í kiwanishreyfingunni að vinna starf sitt til að verðskulda þetta sæmdarheiti.

Í mínum klúbbi eru margir afar duglegir kiwanisfélagar sem hafa starfað lengi í Kiwanis. Félagar sem hafa alltaf mætt vel á fundi, verið virkir í flestum störfum klúbbsins, tekið að sér formennsku í ýmsum nefndum, og öll embætti í stjórn einu sinni eða oftar eins og féhirðir, ritari eða forseti. Jafnvel verið svæðisstjóri og komist til æðstu metorða í Umdæminu.

Svo eru aðrir sem jafnvel eru lítið áberandi, hafa hafnað titlum eða embættum, en jafnframt helgað sig ákveðnum verkefnum innan klúbbsins og sinnt þeim af trúmennsku og eljusemi lengi, jafnvel í áratugi.

Mér er spurn, falla ekki báðar þessar lýsingar jafnt að göfugum markmiðum Kiwanis þar sem segir; „Kiwanis er alheimssamtök sjálfboðaliða sem hafa að markmiði að bæta heiminn með þjónustu í þágu barna. Er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Ekki síst vinna kiwanisfélagar að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra og verða þannig leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.“

Dæmi úr mínum klúbbi um síðari líkinguna af „ góður kiwanisfélagi“ er eftirfarandi lítil frásögn.

Fyrir meira en 20 árum síðan kom áskorun til klúbbsins, sem lítið fór fyrir, frá íþróttafélaginu á staðnum. Um hvort klúbburinn vildi styrkja ferð eins fulltrúa á ársþing Íþróttasambands fatlaðra (ÍF). Var erindinu vel tekið og framhaldið var að óskað var eftir því hvort klúbburinn gæti sent einhvern kiwanisfélagann á þingið. Úr varð að einn félagi okkar féllst á að taka þetta að sér, en á þessum tíma var ekkert til á Húsavík sem hét íþróttastarf fyrir fatlaða. Hvað þá að þar væri íþróttafélag sem sinnti þörfum þessa hóps.

Þegar „kiwanisfélaginn“ kom af ársþingi ÍF fullur af fróðleik og andagift yfir hvað þyrfti og væri hægt að gera á svæðinu fyrir fatlað fólk sem vildi stunda íþróttir, kynnti hann það fyrir kiwanisfélögunum í Skjálfanda. Í klúbbnum fór þá fram málefnaleg umræða um íþrótta-og æskulýðsstarf á svæðinu sem leiddi til þess að stofnuð var „Æskulýðs-og boccianefnd“ í klúbbnum sem verið hefur föst starfsnefnd í klúbbnum síðan, eða í yfir 20 ár.

Fyrsta verk nefndarinnar var að kanna hvort áhugi og vilji væri til að stofna íþróttafélag fatlaðra til að standa fyrir því að sinna þörfum fatlaðra í iðkun íþrótta. Fljótlega var stofnuð „Bocciadeild Völsungs“ að frumkvæði og með stuðningi Skjálfanda.

Öll árin síðan hefur stuðningur við íþróttastarf fatlaðra og Bocciadeildina verið eitt af stóru verkefnum Skjálfanda á hverju starfsári, í formi vinnu klúbbfélaga og beinum fjárhagsstuðningi. Þetta er starf sem hefur verið klúbbfélögum afar hugleikið og gefandi og ekki síst átt þátt í skemmtilegu og öflugu starfi klúbbsins gegnum árin.

Títt nefndur „kiwanisfélagi“ fór fyrir þessu starfi innan klúbbsins og hefur verið formaður nefndarinnar allt frá upphafi og jafnframt kjörinn formaður fyrstu stjórnar Bocciadeildarinnar við stofnun og sinnt því starfi alla tíð síðan. Slíkt starf hefur ekki verið afslöppun eða dvali heldur stöðug vinna og útsjónasemi sem kallað hefur á mikið starf nefndamanna og reyndar allra klúbbfélaga. Starfið fellst m.a. í fjáröflun fyrir íþróttastarfið, koma að þjálfun íþróttafólksins, fjölbreyttu mótahaldi, ferðir á mót og annast alla dómgæslu á mótum hér heima.

Á þessum tíma hefur „kiwanisfélaginn“ mætt á flest þing ÍF, farið með íþróttafólkið öll árin á íþróttamót innanlands, ekki færri en fjögur á hverju starfsári. Og komið að og staðið fyrir hönd Kiwanis klúbbsins að öllum íþróttamótum sem félagið hefur haldið hér heima, hvort heldur er innanhéraðsmót, Norðurlandsmót eða Íslandsmót.

Það er starf sem þetta sem er svo mikilvægt í starfi og anda Kiwanis. Starf sem greinilega hefur skilað miklu fyrir skjólstæðingana og bætt okkar nærsamfélag. Þetta starf hefur líka gefið okkur félögum í Skjálfanda mikið í gegnum árin, gert klúbbinn sýnilegri og stuðlað að meiri samheldni og gleði í Kiwanis starfinu.

Húsavík, á aðventu 2011
Egill Olgeirsson


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744